Tekjur helmings sjálfstætt starfandi tæknifólks í miðlun og skapandi greinum dragast saman um 70-100% vegna beinna áhrifa samkomubannsins. Áhrif samkomubanns á afkomu þeirra fastráðnu eru líka gríðarmikil og alvarleg, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Félag tæknifólks í rafiðnaði gerði núna um mánaðarmótin mars/apríl.

Helmingur fastráðinna býr við skert starfshlutfall og níu af hverjum tíu segja að það hafi mikla kjaraskerðingu í för með sér. Yfir 20% gera ráð fyrir uppsögnum á vinnustöðum sínum.

Tæknifólk í miðlun og skapandi greinum eru til dæmis hljóðmenn og ljósamenn í leikhúsum, á tónleikum, við útsendingar frá kappleikjum og íþróttamótum, í kvikmyndagerð og á hvers kyns samkomum. Félagsmenn sinna líka forritun, kerfisstjórnun, vefumsjón og mörgu fleiru.

Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði, segir að stjórn þess hafi sent félagsmönnum spurningalista til að fá áreiðanlegar upplýsingar um stöðuna. Ástand og horfur séu vægast sagt skuggalegar.

Jakob Tryggvason

Jakob Tryggvason formaður FTR/Ljósmynd Birta.is

„Dæmi eru um fólk sem vann 50-60 tíma á viku í febrúar og mars en hefur alls ekkert við að vera nú þegar leikhúsin eru lokuð og aflýst hefur verið öllum tónleikum, árshátíðum, ráðstefnum og íþróttaviðburðum. Því miður er einfaldast að segja að allt sé í frosti og fullkominni óvissu með verkefni og tekjur fjölda félagsmanna okkar.

Margir höfðu vænst vinnu og tekna í ár við gerð sjónvarpsþátta og kvikmynda þar sem erlent fjármagn kæmi við sögu. Slík verkefni eru nú öll í biðstöðu og enginn veit hvað úr verður og þá hvenær.

Hópur tæknifólks í skapandi greinum af ýmsu tagi er stór og stækkar ár frá ári. Hann er nánast ósýnilegur í störfum sínum en ómissandi við að miðla alls kyns efni á samkomum, í fjölmiðlum, með streymisveitum og á annan hátt. Þessi atvinnustarfsemi er tiltölulega ung og ég óttast að þessar ótrúlegu hamfarir á hefðbundnum vinnumarkaði okkar fólks leiði til þess að margir sjái ekki annan kost en að hverfa úr faggreinum sínum og snúa sér að einhverju öðru.

Stjórnvöld hafa gripið til tímabundinna ráðstafana á vinnumarkaði og þær eru vissulega til bóta en ég óttast mjög langtímaáhrif ástandsins.“

Félag tæknifólks í rafiðnaði er næststærsta félagið í Rafiðnaðarsambandi Íslands. Ákveðið er að síðar á árinu 2020 sameinist það kjaradeild félags kvikmyndagerðarmanna og Félagi sýningarstjóra í kvikmyndahúsum. Sameining hefur verið samþykkt í öllum félögum.